Listin að hella upp á te
Tefélagið selur telauf, ekki te í síupokum. Ástæðan er að laust te er yfirleitt betra en pokate. Til þess að ná bestu gæðum þarf að vanda uppáhellinguna. Algengustu mistökin eru að nota of mikið te og láta teið liggja of lengi í vatninu.
Vellíðan
Tedrykkja byggir á aldagömlum siðum, einn sá mikivægasti er að taka góða tíma í að hella uppá og nota þá stund til að hvíla hugann.
Vatn og hitastig
Mikilvægt er að nota ferskt kalt vatn úr krana þegar hellt er uppá te og gæta þess að sjóða það ekki of lengi. Ef vatnið er soðið lengi minnkar súrernisinnihald vatnsins sem hefur áhrif á tebragðið. Íslenskt vatn er mjúkt og hentar afar vel til tegerðar. Með því að tryggja að vatnið sem notað er sé gott er hálfur sigur unninn.
Hitastigið á vatninu má vera frá 80 – 100 gráður. Lægra hitastig hentar betur fyrir grænt, hvítt og lítið gerjað oolong te en sjóðandi vatn er ljómandi gott fyrir svart te.
Tæki og tól
Það er hægt að nota margar ólíkar leiðir til þess að hella uppá te. Hægt er að fá poka, klemmur, síur og önnur tæki til þess að sía teið í vatninu. Einnig er hægt að setja telaufin beint í ketilinn og umhella yfir í annan ketil þegar teið er tilbúið. Það er kostur ef vatnið fær að leika um laufin á meðan bragð- og næringaefni eru að berast úr laufunum í vatnið.
Það getur verið gott að hita (hella heitu vatni í) katla og bolla til þess að teið kólni ekki skarplega þegar það fer í ketilinn og úr katli í bolla.
Temagn og stöðutími
Eins og áður hefur komið fram eru algengustu mistök sem gerð eru við uppáhellingu á tei og nánast eina leiðin til þess að eyðileggja góðan tebolla að nota of mikið af lausu tei. Því vandaðra og dýrara sem teið er því minna magn þarf. Það er ekkert eitt svar við því hvað mikið te á að nota, það fer eftir þeim sem hellir uppá, teinu sem notað er, áhöldum og fleiri þáttum. Gott er að byrja á einni teskeið og finna svo „sitt“ magn. Tedrykkja er lífstíll sem endist alla æfina. Það er því nægur tími til að finna réttu blönduna.
Hin leiðin til þess að eyðileggja te er að láta það standa of lengi. Þetta á sérstaklega við um grænt te af slökum gæðum. Virkilega góð te geta staðið lengi og breytt um bragð og eiginleika á stöðutímanum. Besta leiðin til þess að finna rétta stöðutímann fyrir uppáhaldsteið er að prófa sig áfram, byrja mjög fljótt að taka fyrstu sopana og fylla síðan bollann þegar rétta bragðið kemur.
Almenna reglan um stöðutíma er að grænt te þurfi um tvær mínútur, hvítt eitthvað svipað, Oolong heldur meira og svart te um fjórar mínútur. Við hvetjum til þess að þessar reglur séu brotnar og hver og einn finni sinn tíma.
Varðveittu gæðin
Til þess að te haldi þeim olíum sem gefa bragð og ilm er mikilvægt að geyma teið á viðeigandi hirslum. Geymdu te og jurtaseiði á köldum, dimmum og þurrum stað. Séu telaufin berskjölduð fyrir geislum sólarinnar eða í röku umhverfi geta þau eyðilagst og tapað eiginleikum sínum.
Hreinsaðu
Það getur verið góður siður að skola telaufin með því að hella yfir þau vatni, skola í nokkrar sekúndur og hella vatninu af. Kínverjar kalla þetta að vekja laufin en auðvitað er markmiðið að skola burt rykið af laufunum ef það er til staðar.
Skynjaðu
Finndu lyktina, taktu sopa og njóttu. Hafðu í huga allar hendurnar sem hafa lagst á eitt að gera þennan tebolla frábæran, allt frá telistafólki í Asíu til tekaupmanna á Íslandi.