Camellia sinensis - plantan sem gefur okkur allt te
Allt te er afurð trjárunna sem á fræðimáli heitir Camellia sinensis. Teplantan, sem talin er upprunnin í Yunnan-héraði í Kína, er til í nokkrum ólíkum afbrigðum. Í Kína og Japan er ræktaður runni sem ber fínlegt og viðkvæmt lauf en í Assam-héraði í Indlandi rækta bændur teplöntur sem bera stór og safarík blöð. Bragðeiginleikar telaufanna eru ólíkir eftir því hvar og hvernig plantan er ræktuð. Teplanta í mikilli hæð yfir sjávarmáli vex hægar og gefur annað tebragð en planta sem býr við raka, hita og aðrar kjöraðstæðu. Ástand jarðvegs hefur áhrif á bragðið og einnig hversu berskjölduð plantan er fyrir veðri og vindum. Aldur teplöntunnar skiptir máli – því eldri sem hún er því fjölþættara og betra er bragðið. Teplantan er eins og mannskepnan, þroskast og batnar með aldrinum og verður best ef hún fær hæfilegt mótlæti.